Bókaormar Brekkó 2018

Úrslitaviðureignin í keppninni Bókaormar Brekkó fór fram í morgun. Keppnin er fyrir nemendur í 4. - 7. bekk og hefur undankeppnin staðið yfir síðustu vikur. Hver bekkur tefldi fram þriggja manna liði til að svara spurningum og einum að auki í látbragðsleik. Spurningarnar sem liðin glímdu við voru úr einhverjum þeirra 17 bóka sem lágu til grundvallar og voru kynntar til leiks áður en nemendur fóru í sumarfrí síðasta vor. Keppendur máttu einnig í nokkrum tilfellum fá hjálp frá bekkjarfélögum sínum í salnum og því mikilvægt að allir hafi lesið sem mest af þeim bókum sem spurt var úr. 

Til úrslita kepptu bæði lið 7. bekkjar, hið gula lið 7. S og hið hvíta lið 7. B. Var þetta stórskemmtileg viðureign þar sem liðin skiptust á að hala inn stig, en að lokum fór þó svo að lið 7. S fór með sigur af  hólmi og fær því titilinn Bókaormar Brekkó.  Myndir frá úrslitakeppninni má sjá hér.