Lokahátíð upplestrarkeppni grunnskólanna á Akranesi

Tinna Björg og Lilja Dís voru valdar upplesarar grunnskólanna á Akranesi 2022.
Tinna Björg og Lilja Dís voru valdar upplesarar grunnskólanna á Akranesi 2022.

Miðvikudagskvöldið 16. mars var lokahátíð Upplestrarkeppni grunnskólanna á Akranesi haldin í Tónbergi. Þar var boðið upp á upplestur 12 nemenda úr 7. bekkjum Brekkubæjarskóla og Grundaskóla. Að auki flutti rithöfundurinn Eva Björg Ægisdóttir ávarp, flutt voru tónlistaratriði nemenda úr Tónlistarskóla Akraness og Viktoria Emilia Orlita, nemandi úr 7. bekk Brekkubæjarskóla, las upp ljóð á pólsku.

Dagur íslenskarar tungu, 16. nóvember, markaði upphafið að upplestrarkeppninni. Þá hófst ferlið formlega og alllir nemendur 7. bekkjar tóku til við æfingar á upplestri á ljóðum og sögum. Um mánaðamótin febrúar/mars voru haldnar undankeppnir í grunnskólunum og 6 bestu lesararnir úr hvorum skóla valdir til að lesa á lokahátíðinni. Lesefnið sem lá til grundvallar á lokahátíðinni samanstóð af texta úr bókinni Akam, ég og Annika, ljóðum úr ýmsum áttum, og ljóðum sem krakkarnir völdu sjálfir. Þriggja manna dómnefnd fékk síðan það erfiða verkefni að velja besta lesarann úr hvorum skóla fyrir sig. Dómnefndina skipuðu þau Halldóra Jónsdóttir, Jakob Þór Einarsson og séra Þráinn Haraldsson.

Allir þátttakendur stóðu sig með stakri prýði og eiga mikið lof skilið fyrir frábæra frammistöðu. Leikar fóru þó þannig að Lilja Dís Lárusdóttir var valin upplesari Brekkubæjarskóla og Tinna Björg Jónsdóttir upplesari Grundaskóla. 

Einnig voru afhentar viðurkenningar fyrir teikningar á boðskort sem var sent á gesti hátíðarinnar. Það voru þær Helena Ósk Somlata Einarsdóttir og Lilja Dís Lárusdóttir  sem fengu þær viðurkenningar. 

Myndir frá lokahátíð upplestrarkeppninnar.