Bókaormar Brekkó

Hin árlega bókaspurningakeppni, Bókaormar Brekkubæjarskóla, hefst alltaf á vorin þegar nemendur í 3.-6. bekk fá lista yfir þær bækur sem spurt verður úr. Nemendur hafa því allt sumarið til að lesa bækurnar og geta svo haldið áfram að lesa allt haustið líka.
Það eru því nemendur í 4.-7. BS sem taka þátt. Þátttaka er valfrjáls en átta lið hefja keppni hvert haust.
Keppendur þurfa að svara allskonar spurningum, svo sem hraðaspurningum, bjölluspurningum og vísbendingaspurningum. Svo þarf líka að para saman bók og höfund, giska á hvaða orð látbragðsleikari er að leika og svara spurningum úr bók að eigin vali. Í þremur af þessum flokkum geta nemendur í bekknum aðstoðað liðið sitt ef þeir vita svarið.
Eftir sex spennandi viðureignir og undanúrslit fór úrslitaviðureignin í Bókaormum Brekkubæjarskóla fram í salnum í morgun.
Bæði liðin höfðu öflugt stuðningsfólk sem meðal annars hafði með sér hvatningarspjöld og trommur. Liðin og stuðningsfólkið voru klædd í liti liðanna. Lið 5. BS hafði grænan lit en lið 6. BS hafði svartan.
Keppnin var æsispennandi, liðin skiptust á við að taka forystuna og úrslitin réðust ekki fyrr en á síðustu spurningu. Það var græna lið 5. BS sem svaraði henni rétt og tók því farandbikarinn, sem Hallbera Jóhannesdóttir gaf skólanum.
Til hamingju með annað sætið svarta lið! Til hamingju með sigurinn græna lið! Og til hamingju með flotta spurningakeppni allir bókaormar Brekkubæjarskóla!