Draumaskólinn

Draumaskólinn er árlegt verkefni í 5. bekk.

Markmiðið með Draumaskólaverkefninu er að börnin fái tækifæri til þess að koma sínum hugmyndum um gott skólastarf á framfæri og tryggja það að hlustað verði á hugmyndir þeirra og brugðist við þeim.

Börnin byrja á því að safna hugmyndum um hvernig mætti gera skólann betri. Hugmyndir þeirra geta átt við allt sem viðkemur skólastarfinu: námið, kennsluna, námsefnið, skólarýmið, skólalóðina, matinn, frímínútur, samskipti o.fl.

Síðan vinna börnin með hugmyndirnar á skapandi hátt, t.d með því að gera myndbönd, teiknimyndasögur, rafbækur, hugkort, veggspjöld, glærusýningar o.fl., sem þau kynna svo fyrir samnemendum og öðrum. Mikilvægast í þessu ferli er að börnin fái að kynna hugmyndir sínar fyrir skólastjórninni, færi rökstuðning fyrir þeim og komi jafnvel með hugmyndir að mögulegum leiðum til gera þær að veruleika.

Skólastjórnin ræðir hugmyndirnar við börnin og yfirleitt fá nokkrar hugmyndir samþykki til þess að fara í framkvæmd. Sumar hugmyndir er hægt að framkvæma strax en stundum eru mótaðir ráðgjafarhópar barna sem útfæra hugmyndirnar frekar og gera áætlanir, hrinda þeim framkvæmd og fylgja þeim eftir.

Fyrsta Draumaskólaverkefnið hófst haustið 2020 og síðan þá hafa fjölmargar hugmyndir farið í framkvæmd. Dæmi um það eru val nemenda á matseðil, Sólin og bókaklúbbur á miðstigi.

Draumaskólaverkefnið er í stöðugri þróun og tekur breytingum með hverjum hópi sem framkvæmir það. Kjarninn verður þó ávallt hinn sami; að börnin segi frá sínum hugmyndum, fái áheyrn og taki þátt í að gera hugmyndirnar að veruleika. Þannig læra börnin að þeirra rödd skiptir máli, það er hlustað á þau og að þau geta haft áhrif á skólann sinn og gert hann betri.

Hér má nálgast kynningarmyndband nemenda um Draumaskólann.