Umhverfisstefnan

Græni fáninn sem blaktir við hún á fánastöng skólans er viðurkenning Landverndar á því að vel hefur verið staðið að umhverfismálum skólans. Grænfáninn er alþjóðlegt umhverfismerki sem skólum gefst tækifæri til að sækja um hafi þeir unnið að bótum á umhverfismálum eftir vinnuferli sem kallast ,,skólar á grænni grein.’

Brekkubæjarskóli fékk Grænfánann fyrst 2007 og hefur fengið hann endurnýjaðan fimm sinnum síðan þá. Til þess að fá að  halda Grænfánanum þarf skólinn að halda áfram þeirri góðu vinnu sem tryggði okkur fánann og bæta  nýjum atriðum inn á verkefnalistann.

Í kjölfar þessa verkefnis hefur margt breyst til batnaðar í skólanum. Sem dæmi um það hefur dregið verulega úr orkunotkun og endurnýting á pappír hefur stóraukist hjá bæði nemendum og kennurum. Allt rusl  í skólanum er flokkað og sett í þar til gerða flokkunargáma. Notkun á pappírsþurrkum hefur dregist verulega saman og umhverfisvæn hreinsiefni eru notuð við þrif.  Ýmis skemmtileg verkefni hafa verið unnin þar sem endurnýting er höfð að leiðarljósi, t.d. pappírs- og kertagerð og listaverk unnin úr ýmsum hlutum sem annars hefði verið fleygt.

Umhverfisteymi kallast hópurinn sem stýrir því hvaða verkefni verða fyrir valinu og hvernig þau eru unnin. Í teyminu eru 3 kennarar. Auk þess er starfandi við skólann umhverfisnefnd en í henni sitja auk teymisins fulltrúar nemenda, annars starfsfólks skólans og foreldra.

Hægt er að lesa meira um grænfánann með því að smella hér.