Skólahjúkrun

Heilsugæslan er á vegum HVE.  Skólahjúkrunarfræðingur, Ólöf Lilja Lárusdóttir, er starfandi við skólann og hefur aðsetur á jarðhæð í nýbyggingu. Viðtalstími er frá 9-14 mánudaga til fimmtudaga.

Tilgangur skólaheilsugæslu er að fylgjast með heilsu, þroska, líðan og högum barna á grunnskólaaldri. Hlutverk hennar er að stuðla að líkamlegu, andlegu og félagslegu heilbrigði skólabarna og að greina og sinna heilbrigðisvandamálum sem hafa áhrif á velferð nemenda og námsgetu. Einnig að meta þá þætti í umhverfi og aðstæðum barna sem hafa áhrif á heilsu og líðan þeirra. Boðið er upp á reglulegar skoðanir, viðtöl og fræðslu ásamt bólusetningum.

Starfsfólk skólaheilsugæslu vinnur í náinni samvinnu við foreldra/ forráðmenn, skólastjórnendur, kennara og aðra sem veita skólabarninu þjónustu. Starfsfólk heilsugæslunnar er bundið þagnaskyldu.

Skólahjúkrunarfræðingur, kennari eða skólaliði veita fyrstu hjálp ef slys ber að höndum. Ef barn veikist í skólanum eða meiðist alvarlega er haft samband við forráðamenn. Því er nauðsynlegt að skólinn hafi símanúmer foreldra/forráðamanna.

Eftirlit með líkamlegu ástandi nemenda fer fram í samvinnu skólahjúkrunarfræðings og heilsugæslulæknis. Eftirfarandi atriði eru athuguð sérstaklega hjá nemendum:

1. bekkur hæð, þyngd og sjón. Flúorþjálfun.

2. bekkur hæð, þyngd og heyrn.

4. bekkur hæð, þyngd og sjón.

7. bekkur hæð, þyngd, sjón og litarskyn. Læknisskoðun og bólusetning við mislingum, hettusótt og rauðum hundum

9. bekkur Bólusetning við barnaveiki, stífkrampa,kíghósta og mænusótt.

10. bekkur hæð, þyngd, sjón og heyrn. Læknisskoðun og blóðþrýstingsmæling.

Bólusett er gegn mislingum, hettusótt og rauðum hundum, allt í einni sprautu. Leiði skoðun hjá hjúkrunarfræðingi/lækni í ljós eitthvað sem þarf að athuga nánar, fær barnið tilvísun með sér heim eða haft er samband við foreldra þess símleiðis. Fyrir utan hefðbundið eftirlit er öllum nemendum skólans og foreldrum þeirra velkomið að leita til skólahjúkrunarfræðings ef þeim liggur eitthvað á hjarta. Einnig sér hjúkrunarfræðingur um fræðslu til nemenda um ýmsa þætti s.s. persónulegt hreinlæti, næringu, svefn, hvíld og kynþroska.

Það er mjög mikilvægt að láta umsjónarkennara vita ef eitthvað er að hjá nemendum sem gæti haft áhrif á nám þeirra við skólann s.s. sjóndepra, heyrnarskerðing, astmi eða ofnæmi.