Stuðningur við nemendur

Stuðningur fyrir börn með sérþarfir

Í grunnskólalögum er kveðið á um að skólinn skuli haga störfum sínum í sem fyllstu samræmi við eðli og þarfir hvers nemanda og stuðla að alhliða þroska hvers og eins. Samkvæmt lögum eiga allir nemendur rétt á að komið sé til móts við námsþarfir þeirra í almennum grunnskóla án aðgreiningar, án tillits til líkamlegs eða andlegs þroska. 

Nemendur með sérþarfir teljast þeir sem eiga erfitt með nám sökum sértækra námsörðugleika, tilfinningalegra eða félagslegra erfiðleika og/eða fötlunar, nemendur með leshömlun, langveikir nemendur, nemendur með þroskaröskun, geðraskanir og aðrir nemendur með heilsutengdar sérþarfir. Bráðgerir nemendur og nemendur, sem búa yfir sérhæfileikum á vissum sviðum, eiga rétt á að fá námstækifæri við sitt hæfi.

 Í grunnskólalögum er kveðið á um að skólinn skuli haga störfum sínum í sem fyllstu samræmi við eðli og þarfir hvers nemanda og stuðla að alhliða þroska hvers og eins. Samkvæmt lögum eiga allir nemendur rétt á námi við hæfi í grunnskólum og sveitarfélögum er skylt að sjá öllum nemendum fyrir viðeigandi kennslu.

Fyrirkomulag sérkennslu

Sérkennsla skiptist í eftirtalda þætti:

-         Kennsla nemenda með einstaklingsnámskrá. Kennsla sem felur í sér verulega breytingu á námsmarkmiðum, námsefni,  námsaðstæðum og/ eða kennsluaðstæðum.

-         Stuðningsmiðuð kennsla. Aðaláhersla á lestur og stærðfræði. Ekki er vikið verulega frá bekkjarnámskrá.

-         Nýbúafræðsla, ætluð nemendum sem hafa annað tungumál en íslensku að móðurmáli eða hafa dvalið langdvölum erlendis.

Nemendur fá sérkennslu samkvæmt greiningu sérfræðinga og greinandi skimunarprófum, ábendingum ýmissa aðila, svo sem leikskólakennara, talmeinafræðings, kennara, deildarstjóra og foreldra. Að hausti skiptir deildarstjóri stoðþjónustu sérkennslutímum og kennurum niður á stig og árganga. Sérkennarar og umsjónarkennarar fara saman yfir nemendahópinn og ákveða fyrirkomulagið á sérkennslunni. Þetta fyrirkomulag er endurskoðað nokkrum sinnum yfir skólaárið.

Sérdeild Brekkubæjarskóla

Sérdeild Brekkubæjarskóla var formlega stofnuð árið 1986. Hún tilheyrir Brekkubæjarskóla á Akranesi og er rekin af Akraneskaupstað. Tilgangur með stofnun hennar var að gera fötluðum börnum á Akranesi kleift að stunda nám í heimabyggð. Sérdeildin þjónar báðum grunnskólum Akraneskaupstaðar og foreldrar fatlaðra barna hafa valkost um nám í sérdeild eða í almennum bekk fyrir börn sín.

Árlegur starfstími sérdeildar fylgir skóladagatali Brekkubæjarskóla. Hver nemandi hefur sína stundaskrá og fær fylgd starfsfólks sérdeildar eftir þörfum. Daglegur skólatími nemenda miðast við gildandi viðmiðunarstundaskrá og býðst nemendum á yngsta stigi að fara í frístund eftir að skóladegi lýkur. Nemendur sérdeildar í 5.- 10. bekk eiga kost á að fara í skipulagða frístund í Félagsmiðstöðina Arnardal/Þorpið eftir að skóla lýkur.

Meginmarkmið sérdeildarinnar er að nemendur séu sem mest inni í bekknum sínum með þeim stuðningi sem þarf. Stuðningur og fylgd inn í bekki kemur frá sérdeild og er skipulagður af umsjónaraðila nemandans í sérdeild í samvinnu við umsjónakennara bekkjarins og/eða aðra kennara.

Í sérdeildinni starfa deildarstjóri, kennarar, þroskaþjálfar, iðjuþjálfi og stuðningsfulltrúar. Starfsfólk sérdeildar vinnur í nánu samstarfi við kennara, námsráðgjafa, skólahjúkrunarfræðing, talmeinafræðing og sálfræðing skólans.