Nemendaverndarráð

Samkvæmt grunnskólalögum nr. 91/2008 er starfrækt nemendaverndarráð í Brekkubæjarskóla.  Það starfar samkvæmt reglugerð nr. 584/2010 um sérfræðiþjónustu sveitarfélaga við leik- og grunnskóla og nemendaverndarráð í grunnskólum.

Hlutverk nemendaverndarráðs er að samræma skipulag og framkvæmd þjónustu við nemendur varðandi skólaheilsugæslu, náms- og starfsráðgjöf og sérfræðiþjónustu og vera skólastjóra til aðstoðar um framkvæmd áætlana um sérstaka aðstoð við nemendur. Samstarfið getur verið bæði vegna einstakra nemenda og forvarnarstarfs.

 Í nemendaverndarráði Brekkubæjarskóla eiga sæti skólastjóri, deildarstjóri stoðþjónustu, skólahjúkrunarfræðingur, sálfræðingur og náms- og starfsráðgjafi. Nemendaverndarráð heldur fundi aðra hverja viku og sitja félagsráðgjafar frá barnavernd og iðjuþálfi frá Skóla- og frístundasviði einn fund í mánuði. Nemendaverndarráð fjallar um úrræði í málum nemenda sem til þess er vísað og ákveður til hvaða úrræða og aðgerða verði gripið og hverjir taka verkefnin að sér. Umsjónarkennari getur óskað eftir umfjöllun nemendaverndarráðs um umsjónarnemanda sinn. Kennarinn fyllir út umsókn þar sem fram kemur hver vandinn er og hverju er verið að óska eftir. Foreldrar/forráðamenn þurfa að skrifa undir umsóknina annars er hún ekki tekin til meðferðar. Leitast er við að taka málefni fyrir eins skjótt og hægt er eftir að beiðni berst. Nemendaverndarráð skráir stöðu málsins, fjallar um það faglega, leggur fram tillögur og fylgist með framvindu mála. Ráðið getur kallað á sinn fund þá aðila innan skólans og utan sem það telur að geti upplýst sig um ákveðin málefni. Full trúnaðarskylda fundarmanna gildir á öllum fundum nemendaverndarráðs.

Fundir eru bókaðir og farið með allar upplýsingar samkvæmt reglum um meðferð trúnaðargagna.