Talmeinafræðingur

Talmeinafræðingur, Bergrós Ólafsdóttir, er til staðar í skólanum alla mánudaga. Hún greinir framburðar- og málþroskafrávik og athugar hljóðkerfisvitund (undirstöðu fyrir lestrarnám) hjá nemendum sem vísað er til hennar og veitir ráðgjöf varðandi talþjálfun þeirra. Nemendur fá talþjálfun í skólanum bæði einstaklingslega og í hópum eftir þörfum.

Áður en barn byrjar í 1. bekk fara deildarstjóri stoðþjónustu og talmeinafræðingur fara yfir öll gögn sem berast frá leikskóla yfir í grunnskóla. Talmeinafræðingur og kennari sem sér um málörvun raða börnum síðan í hópa eftir eðli vandans og gerð er einstaklingsáætlun fyrir hvert barn sem fer í málörvunarhóp. Áætlunin er unnin undir leiðsögn talmeinafræðings og valið er málörvunarefni í samræmi við kennsluáætlunina. Málörvunaráætlunin er kynnt fyrir bekkjarkennara og foreldrum og allir fá eintak af áætluninni til að fylgja eftir heima og í skóla.

Talmeinafræðingur tekur við útfylltum beiðnum frá kennurum þar sem beðið er um greiningu á málþroska. Samstarfsfundir eru haldnir með bekkjarkennara og foreldrum eftir þörfum þar sem farið er yfir áherslur í málörvun. Þau börn sem þurfa einstaklingsþjálfun fá tíma hjá talmeinafræðingi eftir þörfum.

Í þeim tilfellum sem viðunandi árangur næst ekki eftir málörvun í fyrsta bekk (samkvæmt málþroskaathugun talmeinafræðings) heldur barnið áfram í málörvun í öðrum bekk. Eftir það er aftur mat á árangri hjá talmeinafræðingi og er þá metið í samráði við foreldra, bekkjarkennara og deildarstjóra stoðþjónustu hvort barnið þurfi meiri stuðning, sérkennslu, nánari greiningu eða frekari sérfræðiaðstoð.