Stoðþjónusta skólans

Í lögum um grunnskóla (nr. 91/2008) er kveðið á um að skólinn skuli haga störfum sínum í samræmi við námsþarfir hvers nemanda, í almennum grunnskóla án aðgreiningar og án tillits til líkamlegs eða andlegs atgervis. Skóli án aðgreiningar er opinber menntastefna á Íslandi og í Aðalnámskrá grunnskóla (2011) kemur fram að í skóla án aðgreiningar ríki viðhorf sem einkennist af virðingu fyrir rétti allra nemenda til virkrar þátttöku í námssamfélagi heimaskóla. Þar er borin virðing fyrir fjölbreytileika, mismunandi þörfum, hæfileikum og einkennum nemenda og leggja skal áherslu á að útrýma öllum gerðum mismununar og aðgreiningar í skólum.

Stoðþjónusta Brekkubæjarskóla byggir á þverfaglegu samstarfi í árgangateymum skólans. Teymin eru skipuð umsjónarkennurum, fagaðilum úr stoðþjónustu (þroskaþjálfa, iðjuþjálfa, tómstundafræðingi, sérkennara eða einstaklingum með aðra sambærilega menntun) og stuðningsfulltrúum. Árgangateymunum er falið að mæta þörfum nemendahópsins þar sem sjónum er beint að þjónustuþörf nemendanna en ekki greiningum, þ.e. formleg greining er ekki forsenda þjónustu. Árgangateymunum er ætlað að skapa menningu sem virðir og fagnar margbreytileikanum. Teymin kortleggja, skipuleggja og framkvæma nám og kennslu fyrir allan nemendahópinn og koma til móts við stuðningsþarfir hvers og eins nemanda. Árgangateymin eru misfjölmenn, allt eftir þörfum nemendahópsins fyrir þjónustu og/eða stuðning.

Námsver: Lagt er upp úr því að bjóða fjölbreyttar aðstæður til náms og eru í skólanum nokkur námsver sem standa öllum nemendum til boða í ákveðnum kennslustundum eða hluta úr skóladegi. 

Sérkennsla: Sérkennarar eru starfandi á öllum stigum skólans og sjá þeir aðallega um stuðningskennslu í íslensku og stærðfræði fyrir þá nemendur sem þess þurfa. Árgangateymin og sérkennarar fara saman yfir nemendahópinn og ákveða fyrirkomulag sérkennslunnar fyrir hvern og einn árgang. 

Nýbúakennsla:  Er ætluð nemendum sem hafa annað tungumál en íslensku að móðurmáli eða hafa dvalið langdvölum erlendis.

Atvinnutengt nám: Er í boði fyrir nemendur í 9. og 10. bekk sem geta ekki nýtt sér hefðbundið bóklegt nám. Þeim gefst þá tækifæri til að sinna hagnýtu námi úti í samfélaginu nokkrar klukkustundir á viku með eftirfylgd og stuðningi frá skólanum. Atvinnuþátttaka nemenda er alfarið á ábyrgð skólans eins og í öðru skólastarfi og með samþykki foreldra.  

Námskeið: Í skólanum eru haldin námskeið er snúa að samskiptum, líðan, sjálfsmynd og félagsfærni. Má þar nefna Snillinganámskeið, ART-námskeið ofl.