Lokahátíð upplestrarkeppninnar

Halldór Emil og Anna Lea eru upplesarar grunnskólanna 2024.
Halldór Emil og Anna Lea eru upplesarar grunnskólanna 2024.

Lokahátíð Upplestrarkeppni grunnskólanna á Akranesi fór fram í Tónbergi í gær. Þar lásu 12 nemendur úr Brekkubæjar- og Grundaskóla upp úr bókinni Bannað að drepa eftir Gunnar Helgason, ljóð eftir Þórarin Eldjárn og svo ljóð sem krakkarnir völdu sjálfir. Einnig voru flutt tónlistaratriði og viðurkenningar veittar fyrir teikningar sem fengu að prýða boðskortin sem send voru út vegna lokahátíðarinnar. Það voru þær Emilía Auður Pétursdóttir úr Brekkubæjarskóla og Dagný Lára Ottesen úr Grundaskóla sem fengu viðurkenningar fyrir teikningarnar. 
Allir krakkarnir sem fóru í pontu og lásu upp stóðu sig með eindæmum vel og höfðu greinilega lagt sig mikið fram við æfingar. Þriggja manna dómnefnd hafði svo það erfiða verkefni að velja úr bestu upplesarana úr hvorum skóla fyrir sig og fóru leikar svo að Anna Lea Halldórsdóttir var valin upplesari Brekkubæjarskóla og Halldór Emil Unnarsson var valinn upplesari Grundaskóla.

Myndir frá lokahátíðinni má sjá hér.