Leikvöllur

Börn í Brekkubæjarskóla tóku virkan þátt í hönnun skólalóðarinnar. Vorið 2019 tóku öll börn skólans þátt í könnun þar sem þau voru spurð um hvað þau vildu hafa á skólalóðinni, hvað væri þar fyrir sem er gott og hvað væri þar sem er óþarfi. Það komu mjög margar hugmyndir og teikningarnar sem gerðar voru byggðu á þessum hugmyndum. Arkitektinn lagði áherslu á að á lóðinni væri eitthvað af öllu sem börnin óskuðu eftir og að lóðin kæmi til móts við þarfir ólíkra aldurshópa.

Fyrsta hluta skólalóðarinnar var breytt sumarið 2021. Börn sem tóku þátt í Draumaskólaverkefni 2020-2021 fengu að rýna í teikningarnar, spyrja spurninga og koma með eigin hugmyndir. Í Draumaskólaverkefninu árið eftir myndaðist ráðgjafahópur um ennþá betri skólalóð sem kom athugasemdum á framfæri um að það vantaði fleiri aðgengileg leiktæki sem börn í hjólastól gætu notað. Hópurinn fundaði með arkitekt og niðurstaðan varð sú að í næsta breytingaáfanga var sett inn aðgengilegt snúningsleiktæki. Einnig stendur til að bæta aðgengi í kringum skólann svo hægt verði að komast allan hringinn á hjólastól.