Í dag, 2.september, fer fram frá Akraneskirkju útför Kristínar Hallsdóttur, fyrrum skólaritara Brekkubæjarskóla. Stína okkar, eins og við í Brekkubæjarskóla kölluðum hana alltaf, var fædd þann 16. október 1954 og lést þann 25. ágúst sl.
Stína hóf störf við Brekkubæjarskóla sem skólaritari árið 2002 og lét af störfum haustið 2019. Stína var einstaklega góður samstarfsmaður og vinkona. Allir sem starfað hafa í grunnskóla vita að skólaritarinn er hjartað í hverjum skóla og það átti svo sannarlega vel við um Stínu okkar. Hlýlegt viðmót, húmor og greiðvikni einkenndu öll hennar samskipti við nemendur jafnt sem samstarfsfólk. Margir nemendur leituðu skjóls hjá Stínu ef eitthvað bjátaði á og alltaf gaf hún sér tíma til að hlusta, spjalla eða hugga. Það kom jafnvel stundum fyrir að útskrifaðir nemendur kæmu í heimsókn á skrifstofuna til Stínu fyrir jól og fengu að sitja hjá henni til að lita jólamyndir og spjalla.
Við Í Brekkubæjarskóla minnumst Stínu okkar með mikilli hlýju og þakklæti fyrir allt það sem hún gaf okkur skólasamfélagi Brekkubæjarskóla. Við sendum Gísla, Inga Rúnari, Láru Björk, Guðrúnu Lind og öllum öðrum aðstandendum okkar innilegustu samúðarkveðjur.
Starfsfólk og nemendur Brekkubæjarskóla.