Bókaormar Brekkó 2025

Í gærmorgun fóru fram úrslit spurningakeppninnar Bókaormar Brekkubæjarskóla 2025.
Við höfum því miður engan sal þessa dagana þannig að við fengum að vera í Tónbergi með úrslitaviðureigninga og þökkum Tónlistarskóla Akraness kærlega fyrir að lána okkur þessa frábæru aðstöðu.
Það er langur aðdragandi að úrslitakeppninni og reyndar byrja allra hörðustu bókaormarnir að lesa um leið og bækurnar eru kynntar að vori og stillt upp á skólasafninu. Við skólalok eru bækurnar síðan færðar yfir á Bókasafn Akraness, þar sem þeim er stillt upp, og eru þannig aðgengilegar allt sumarið.
Að þessu sinni var spurt úr 15 bókum sem voru ólíkar að efni, lengd og erfiðleikastigi.
Átta lið hófu keppni, tvö úr hverjum árgangi og var dregið úr potti hver andstæðingurinn yrði. Þetta árið var keppnin ótrúlega jöfn og stigamunur á milli liða yfirleitt ekki mikill. Þrátt fyrir að mæta gríðarlega sterk til leiks í sinni fyrstu keppni komust lið 4. BS ekki áfram í undanúrslit. Það verður samt gaman að fylgjast með þeim á næsta ári enda hörkukeppendur á ferð.
Í undanúrslitum kepptu annars vegar græna lið 5. BS og bleika lið 7. BS og hins vegar svarta lið 6. BS og rauða lið 7. BS. Báðar viðureignirnar voru æsispennandi. Það má segja að herslumunurinn hafi legið í liðsheild 7. bekkjar því allur bekkurinn var duglegur að lesa bækurnar og græddi fjölda stiga á því að svara spurningum og hjálpa sínum keppnisliðum.
Þannig fór að í úrslitunum í morgun áttust við bæði liðin úr 7. BS þar sem rauða liðið bar sigur af hólmi. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem þessir krakkar lyfta farandbikarnum góða, árgangurinn sigraði keppnina í fyrra og árið þar áður.
Til hamingju 7. BS með frábæran árangur og til hamingju allir krakkar í 4.-7. bekk með virkilega sterka og flotta keppni, þið eruð til fyrirmyndar!
Myndir frá forkeppnum og úrslitakeppni Bókaorma Brekkó má sjá með því að smella hér.